Fróðleikur

Merkingar Hjólbarða


Algengt er að ökumenn viti ekki hvaða stærð af dekkjum er undir bílnum. Auðvelt er að nálgast þessar upplýsingar og lesa nákvæma stærð hjólbarða úr upplýsingum á hlið hans. Þar er einnig að finna upplýsingar um aðra eiginleika, s.s. þann loftþrýsting sem framleiðandi mælir með og merkingar sem segja til um hvort dekkið er ætlað til vetraraksturs.

Notaðu þessa mynd til leiðbeininga um hvernig á að lesa dekkjastærðina undir bílnum þínum. Þú getur að sjálfsögðu slegið inn bílnúmerið í leitarvélina hér til hliðar. Við getum þó ekki ábyrgst að sú leit skili sömu stærð og er undir bílnum, því algengt er að sett sé önnur dekkjastærð undir bílinn heldur en skráningarskírteini bílsins segir til um.

Efni í hjólbörðum tapa eiginleikum sínum með tímanum. Gúmmí verður t.d. harðara með tímanum og hættara við að springa og morkna. Hjólbarðaframleiðendur taka yfirleitt ekki ábyrgð á hjólbörðum lengur en í 4-5 ár frá framleiðslu þeirra og margir bifreiðaframleiðendur mælast til að ökumenn noti ekki hjólbarða sem eru eldri en 6 ára. Hafa ber þetta í huga við kaupa á dekkjum og einkum og sér í lagi þegar notuð dekk eru sett undir bílinn.

Tími nagladekkja

Heimilt að nota neglda hjólbarða utan þess tíma ef þörf er á vegna akstursaðstæðna.

Yfirleitt eru ekki gerðar athugasemdir við það þó nagladekk séu undir bílum út aprílmánuð en eftir þann tíma geta ökumenn búist við því að verða stöðvaðir af lögreglu og sektaðir fyrir notkun negldra hjólbarða.

Sektin fyrir hvert neglt dekk undir bílnum á þeim tíma sem óheimilt er að aka á negldum dekkjum er kr. 20.000 fyrir hvert dekk, þannig að það getur verið býsna dýrt að láta hjá líðast að koma bílnum á sumar- eða heilsársdekk á réttum tíma, eða samtals kr. 80.000 fyrir fjögur negld dekk undir bílnum. Það er fyrir utan hvað það fer illa með götur og dekk að keyra á nöglum á auðu malbikinu.

Reglugerð hjólbarða

Slit hjólbarða / Negling hjólbarða

Frá 1. nóvember verða gerðar auknar kröfur um mynstursdýpt hjólbarða. Er það í samræmi við reglugerð nr. 736/2014. Nánari upplýsingar er að finna á vef Umferðarstofu. Reglugerðina í heild sinni má finna hér.

Hjólbarðar undir bifreið sem er 3.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd skulu allir vera sömu gerðar.

Mynstur hjólbarða

Á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október skulu hjólbarðar vera með a.m.k. 1,6mm mynsturdýpt. Á tímabilinu frá og með 1. nóvember til og með 14. apríl skulu hjólbarðar vera með a.m.k. 3,0mm mynsturdýpt.

Þessar kröfur eru gerðar til fólksbíla, hópbifreiða, vörubifreiða og eftirvagna þeirra.

Á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október skulu hjólbarðar bifreiða til neyðaraksturs vera með a.m.k. 2,0mm mynsturdýpt. Á tímabilinu frá og með 1.nóvember til og með 14. apríl skulu hjólbarðar bifreiða til neyðaraksturs vera með a.m.k. 4,0mm mynsturdýpt.

Mynstur hjólbarða skal ná tilskilinni dýpt á þremur fjórðu hlutum (75%) slitflatarins, sitt hvorum megin við miðju hans.

Hjólbarðar á bifhjóli skulu vera með a.m.k. 1,6mm mynsturdýpt og gerðir fyrir tæknilegan hámarkshraða bifhjólsins.

Hjólbarðar eru með slitmerkjum í mynstri dekksins. Þegar slit er komið niður að þessum merkingum er tími til að skipta um dekk. Reyndar má mæla með því að skipt sé um dekk fyrr þar sem dekkið hefur misst mjög mikið af eiginleikum sínum þegar slitið er farið að nálgast þessi mörk.

Negling hjólbarða

Hjólbarðar fyrir ökutæki sem er 3.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd skulu vera negldir sem hér segir:

  1. Lengd nagla út úr nýnegldum hjólbarða má að meðaltali ekki vera meiri en 1,2 mm.
  2. Lengd nagla út úr hjólbarða má ekki vera minni en 0,9 mm.
  3. Hámarksfjöldi nagla má vera sem hér segir:
    • 90 fyrir felgustærð til og með 13″
    • 110 fyrir felgustærð yfir 13″ til og með 15″
    • 150 fyrir felgustærð yfir 15″.
  4. Hámarksþyngd hvers nagla má vera 1,1 g. Í hjólbarða sem ætlaður er undir torfærubifreið (t.d. jeppa) eða sendibifreið (C eða LT hjólbarði) má þyngd hvers nagla þó mest vera 2,3 g.

Hjólbarðar fyrir ökutæki sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd skulu vera negldir sem hér segir:

  1. Lengd nagla út úr nýnegldum hjólbarða má ekki vera meiri en 1,7 mm.
  2. Lengd nagla út úr hjólbarða má ekki vera minni en 0,9 mm og ekki meiri en 2 mm.
  3. Hámarksfjöldi nagla má vera sem hér segir:
    • 110 fyrir felgustærð til og með 15″
    • 150 fyrir felgustærð yfir 15″. Naglarnir mega þó vera allt að 200 ef útfærsla og ísetning þeirra er í samræmi við ákvæði sem gilda um hjólbarða sem ætlaðir eru undir torfærubifreið (jeppa) eða sendibifreið.
  4. Hámarksþyngd hvers nagla má vera 3 g.

Þegar bifreið sem er 3.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd er búin negldum hjólbörðum, skulu öll hjól vera með negldum börðum. Þegar tvöföld hjól eru á ási er þess ekki krafist að báðir hjólbarðar séu negldir en þeir skulu vera samhverfir um lengdarás bifreiðarinnar. Naglar skulu vera sem næst jafnmargir í hverjum hjólbarða.

Evrópskar neytendamerkingar


Þann 1. nóvember 2012 gengu í gildi reglur Evrópusambandsins um merkingar hjólbarða.

Tilgangur merkinganna er að gefa neytendum betri upplýsingar um gæði hjólbarða hvað þrjá mikilvæga þætti varðar; grip í bleytu, viðnám í akstri (og þar með áhrif á eldsneytiseyðlu) sem og hávaðamengun (sem frávik frá viðmiðunarmörkum).

Neytendur eiga þannig að vera í betri aðstöðu til að leggja mat á gæði hjólbarða og geta tekið upplýstari ákvörðun um kaup á dekkjum. Reglurnar veita framleiðendum jafnframt aðhald til að tryggja og bæta gæði hjólbarða sinna.

Reglurnar gilda um öll dekk sem framleidd eru fyrir fólksbíla, jepplinga og sendibíla. Þær gilda ekki um neglda vetrarhjólbarða, sólaða hjólbarða og ýmsa hjólbarða ætlaða til iðnaðar- og landbúnaðarnota, sem og sérútbúna keppnishjólbarða.

Mikilvægt er að nefna að þessar reglur Evrópusambandsins ákvarða ekki hvaða hjólbarða má selja hér á landi, þó bæði neytendur og söluaðilar taki þeim fagnandi. Áfram gilda þær reglur á Íslandi að hjólbarðar skuli vera viðurkenndir skv. EBE/EB-tilskipunum, ECE- reglum eða framleiddir skv. SAE-stöðlum og vera e-, E- eða DOT-merktir. Við munum því áfram sjá ýmsar gerðir hjólbarða sem ekki hafa þessar merkingar, og er þá helst að nefna stærri jeppadekk og hjólbarða sem innfluttir eru frá Bandaríkjunum og eru fyrst og fremst framleiddir fyrir þann markað.

Viðnám í akstri: Viðnám er lykilþáttur þegar orkunotkun hjólbarða er mæld. Mikið viðnám í akstri hefur bein áhrif á eldsneytiseyðslu bílsins. Hjólbarðar sem merktir eru A í stað G á þessum skala geta minnkað eldsneytiseyðslu bifreiðar um allt að 7,5%. D flokkurinn er ekki notaður fyrir fólksbíla og jepplinga (en notaður fyrir vörubíla).

Þetta getur munað umtalsverðum upphæðum í rekstrarkostnaði bifreiðar. Fyrir bíl sem eyðir 10 lítrum á hundraðið getur það þýtt meira en 50.000 krónum í sparnað á líftíma dekkjanna, hvort valdir eru A merktir eða G merktir hjólbarðar !

Grip í bleytu: Gefin er einkunn frá A-G þar sem A er besta gripið en G það lakasta. Stöðvunarvegalengd er mæld miðað við akstur á 80 km/klst. Milli hvers flokks eykst stöðvunarvegalengdin um 3-6 metra. Flokkar D og G eru ekki notaðir. Athugið að þessi flokkur segir ekkert til um almennt veggrip eða grip í snjó og hálku. Slík flokkun er ekki til enn sem komið er.

Þetta getur þýtt að stöðvunarvegalengd hjólbarða í A flokki sé allt að 18 metrum styttri en hjólbarða í F flokki !

Hávaðamengun: Hljóðmengun er mæld á þriggja strika skala og er miðaður við framtíðarmarkmið Evrópusambandsins um hjólmengun frá hjólbörðum:

  • 1 svart strik: Hljóðlát (3dB eða meira undir markmiðum ESB)
  • 2 svört strik: Meðal (milli markmiða ESB og 3db undir þeim)
  • 3 svört strik: Hávær (fyrir ofan markmið ESB)

Um er að ræða lógaritmiskan skala. Þannig tvöfaldast hávaðinn frá hjólbörðunum við hver 3dB sem talan hækkar. Þannig að þetta getur skipt máli !